Breytingar og aftur breytingar...

Ég hef ákveðið að breyta þessu bloggi mínu aðeins. Hérna ætla ég að skrifa um okkur og fyrirhugaða flutninga okkar og líf okkar á nýjum stað. 

Við höfum verið að gæla við það í ansi langan tíma núna að flytja úr landi. Prófa eitthvað nýtt og víkka sjóndeildarhringinn.
Viðar hefur verið að sækja um störf bæði í Noregi og Svíþjóð frá því í maí og vonum við innilega að það fari eitthvað að gerast í þessum efnum.
Það er búið að vera langt ferli hjá okkur að taka þessa ákvörðun en við tókum hina endanlegu ákvörðun um daginn og síðastliðinn mánudag fór ég með uppsagnarbréfið mitt í vinnuna. Það var frekar erfitt að ganga þetta langt en ég vissi jafnframt það að ég verð að vinna einhvern uppsagnarfrest og því langbest að byrja á að vinna þann uppsagnarfrest. Það auðveldar mér líka að fá að hætta fyrr ef ég fæ vinnu á meðan að ég er að vinna uppsagnarfestinn.
Viðar er ekki ennþá búinn að segja upp og það er spurning hvernig að því verður staðið en við finnum út úr því fljótlega.

Við höfum aðeins rætt þetta við Ástrós Erlu og það kom ekki alveg til af góðu... Konurnar í leikskólanum hennar fóru að ræða það við börnin í hvaða grunnskóla þau ættu að fara. Og þá var sagt að þeir sem búa þarna fara í þennan skóla en þeir sem búa þarna fara í hinn skólann. Og auðvitað vildi hún fá að vita í hvaða skóla hún myndi fara, skiljanlega.
Ég var nú ekki alveg sátt við þetta hjá þeim. Fannst að þær hefðu átt að ræða það við foreldrana áður en þær færu að segja svona við börnin en ég reyndi að humma það fram af mér eins lengi og ég gat að svara blessuðu barninu, þangað til að krafan um svar var orðin svo sterk. Svo ég sagði henni að kannski myndi hún hvorki fara í þennan né hinn skólann... Hver veit nema við myndum ákveða að flytja til útlanda og þá myndi hún fara í skóla þar. Henni þótti það bara spennandi og það næsta sem ég vissi var að hún var farin að tala um það í leikskólanum að hún væri að fara að flytja til útlanda!!! Blessuð börnin vita oft meira en við fullorðna fólkið.

Við erum búin að ákveða að vera í nálægð við Oslo, þó ekki í miðri borginni heldur einhvers staðar fyrir utan hana. Við leitum því núna logandi ljósi að bæði vinnum og eins húsnæði.
Ég talaði við leigusalann okkar á laugardaginn og hún var eiginlega bara mjög fegin þessari ákvörðun okkar. Hún er nefnilega búin að taka þá ákvörðun að selja íbúðina en vildi samt helst ekki gera það af því að hún vildi ekki setja okkur á götuna. Svo þetta auðveldar okkur eiginlega hlutina þar sem að ég hafði áhyggjur af því að hún fengi ekki leigutekjur.

Viðar talaði líka við foreldra sína í gærkvöldi og sagði þeim frá þessum fyrirætlunum okkar og hversu langt þær væru komnar. Þau urðu að vonum ekki kát með þetta en við stefnum að því að fá þau út til okkar í heimsókn þegar við erum flutt og búin að koma okkur fyrir á nýjum stað.
Það eina sem við í raun og veru vitum eins og staðan er núna er að við viljum ekki borga Icesave og við viljum heldur ekki að Ástrós Erla borgi Icesave. Eins er það nú svo að skattapíningin sem framundan er, er eitthvað sem við getum ekki ráðið við og því neyðumst við til að fara þessa leið.

Meira síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband