Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009
Allt að taka á sig mynd...
11.11.2009 | 09:20
Jæja, núna eru hlutirnir byrjaðir að taka á sig einhverja mynd hjá okkur.
Ég hætti að vinna um næstu mánaðarmót og á sama tíma styttist leikskólinn hjá Ástrós Erlu um 3 klukkutíma á dag. Ég sé enga ástæðu til að vera að borga fyrir vistun í 9 1/2 tíma á dag þegar ég verð heima. Svo frá og með 1. desember verður hún í leikskólanum frá kl 8.30 til 15.00.
Restina af deginum munum við svo nota til að dúlla okkur saman við bakstur og svoleiðis skemmtilegheit
Annars munu dagar mínir fara í það að pakka niður því sem hægt er að pakka niður yfirfram, þrífa alla fataskápa og undirbúa jólin.
Við ætlum að skila af okkur íbúðinni milli jóla og nýárs og því verða jólin okkar með örlítið öðru sniði í ár heldur en áður. Jólaljósin fara til dæmis upp núna um næstu helgi 14. eða 15. nóvember og helgina á eftir verður jólaskreytt meira og líklega byrjað að baka.
Ástrós Erla fær jólin sín, en bara svolítið snemma út af aðstæðunum og henni finnst það ekkert verra
Við tókum þá ákvörðun að fara ekki úr landi fyrr en eftir áramótin. Leyfa Ástrós Erlu að taka þátt í jólaprógramminu á leikskólanum og eins í ballettinum. Og síðast en ekki síst, að leyfa henni (og okkur) að eiga síðustu jólin í bili með fjölskyldunni. Henni hlakkar orðið mikið til jólanna og hún bíður spennt eftir því að við setjum upp jólaljósin
Viðar hefur verið sá sem hefur átt erfiðast með þessa breytingar, þó hann hafi verið upphafsmaðurinn af þeim. Hann er náttúrulega í vinnu sem hann elskar og hefur gaman af og hann er búinn að vinna hjá Icelandair í 10+ ár!!! Svo þetta hefur síður en svo verið auðvelt fyrir hann en hann sagði loksins endanlega upp í gærkvöldi. Hann var búinn að ræða þessar breytingar tvisvar við sinn yfirmann þannig að hann vissi hvað væri í gangi en það er alltaf erfiðast að segja upp.
Jæja, ég læt þetta duga í bili.
Hulda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)